Af tilefni Háskólatónleika Páls Eyjólfssonar og Magneu Árnadóttur 8. mars 2006 segir höfundurinn Hjálmar H. Ragnarsson um verk sitt; Fimm bagatellur fyrir flautu og gítar Það var um 1989 að ég fyrir atbeina þeirra Kolbeins Bjarnasonar flautuleikara og Páls Eyjólfssonar gítarleikara, setti saman lagaflokk með ýmsum lögum úr leikhús- og sjónvarpstónlist sem ég hafði þá frekar nýlega samið. Fyrst voru þetta bara þrjú lög en síðar fjölgaði ég þeim í fimm. Kölluðum við þetta 'bagatellur' eða 'smálög.' Þeir félagar léku bagatellurnar mjög víða næstu árin við ýmis tækifæri, ekki endilega svo mikið á tónleikum heldur ekki síður við ýmsar athafnir og í heldri boðum. Verkið mótaðist þannig að nokkru í höndunum á þeim. Þá tóku þetta aðrir upp frá þeim Kolbeini og Páli svo þessi tónlist heyrðist býsna víða. Fyrir flutninginn á tónleikunum í dag höfum við Páll gert ýmsar breytingar til þess að styrkja innbyrðis tengsl laganna, aðallega þó með því að færa þau til í tóntegundum. Ég hefi ekki skírt lögin en þau hafa þó hvert og eitt sinn ákveðna karakter. Fyrsta lagið er forleikur, frekar hátíðlegur í fornum hefðarstíl; annað lagið, lítill vals, er ljóðrænt, mjúkur sunnanblær, og tekur ilm af suðrænum skógum; það þriðja er í raun lítil danssvíta, aftur vísað til barrokks eða jafnvel ennþá aftar; fjórða lagið ákaflyndara og ógnvænlegra, lítill djöfladans; og svo síðast er aftur ljóðrænan ráðandi; eins konar 'rêverie' leiðsla eða órar. ... kannski ekki svo vitlaust að njóta tónlistar eins og vínsins: þrúgurnar eru mismunandi, tunnurnar gefa keim eftir því hvaðan viðurinn kemur, og það er bruggað á ólíkan hátt, - allt þetta í flóknu samspili ræður bragðinu, .. þó þegar upp er staðið er þetta bara vín... HHR
|